Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hefur þokast upp á við síðustu daga eftir mikla lækkun kröfunnar á síðustu vikum síðasta árs. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að í ljósi væntinga um frekari hækkun stýrivaxta Seðlabanka ætti ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa, einkum stystu flokkanna, að vera mun hærri en hún er í dag. Á móti kemur að ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra skuldabréfa hefur lækkað og mun væntanlega lækka áfram vegna minnkandi framboðs.

Lækkun ávöxtunarkröfu verðtryggðu flokkanna togar því niður lengri enda óverðtryggða ferilsins og takmarkar þannig hækkun ávöxtunarkröfu lengsta ríkisbréfaflokksins, RIKB 13. Að okkar mati mun hallinn á óverðtryggða vaxtaferlinum halda áfram að aukast á næstu vikum og mánuðum.

Ávöxtunarkrafa stysta flokksins RIKB 07 var í kringum 8,4% við lok viðskipta á föstudag. Við spáum því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um allt að 50 punkta samhliða útgáfu Peningamála í mars og ætti ávöxtunarkrafa styttri ríkisbréfanna að hækka samhliða. Til skemmri tíma gætu þó væntingar um lækkun vísitölu neysluverðs í febrúar og lítið framboð af bréfum haldið aftur af hækkun ávöxtunarkröfunnar. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir lítilsháttar lækkun vísitölu neysluverðs í febrúar (-0,1%) þar sem útsölur verða þá í hámarki. Í mars er hins vegar gert ráð fyrir að útsöluáhrifin gangi til baka og vísitala neysluverðs hækki talsvert (0,6%).