Smásölukeðjan Hagkaup hefur ákveðið að fresta Dönskum dögum um óákveðinn tíma eftir að svekkjandi tap danska handboltalandsliðsins gegn Frökkum í gær gerði það að verkum að íslenska landsliðið komst ekki í undanúrslit Evrópumótsins.

„Kæru viðskiptavinir. Í ljósi aðstæðna teljum við að landinn sé ekki alveg tilbúinn í Danska daga svo við höfum ákveðið að fresta þeim um óákveðin tíma. Nánari tilkynning kemur síðar í takt við líðan þjóðarinnar,“ segir í Facebook færslu Hagkaups sem hefur vakið mikla lukku.

Hagkaup hefur undanfarin ár haldið upp á Danska daga þar sem boðið er upp á úrval af dönskum vörum. Dönsku dagarnir fara yfirleitt fram í mars og því virðist sem úrslitin í gær hafi setið afar illa í stjórnendum Hagkaups.

„Það þarf að vera rétta mómentið fyrir svona uppákomur. Við viljum hafa allan varan á og að landinn sé búinn að gleyma, farinn að horfa á bjartari tíma, kominn út úr Covid og farinn að brosa þegar við hendum í Dönsku dagana,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, við Vísi í dag.