Frestur helstu eigenda Hitaveitu Suðurnesja til að svara Samkeppniseftirlitinu vegna forúrskurðar þess um möguleg kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut Hafnarfjarðar í HS rennur út í dag. Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR, segir ekki eðlilegt að greina frá innihald svars OR áður en það hafi borist eftirlitinu.

Samkeppniseftirlitið gerir athugasemdir við það í forúrskurði sínum að OR eigi of stóran hlut í HS, en tilgreinir þó ekki nákvæmlega hve stór hlutur OR í HS megi vera. Helstu eigendur HS fengu frest til að andmæla þessu áliti eftirlitsins fyrir páska en eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er ekki eining innan hópsins um niðurstöðu  málsins.

Búast má við endanlegri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins innan tíðar.

Reykjanesbær er stærsti eigandi HS með um 34,7% hlut. Geysir Green Energy á 32% hlut í félaginu, OR um 16,5%, Hafnarfjarðarbær um 15,4% og aðrir minna.

Hafnarfjarðarbær ákvað um jólin að selja allt að 95% af sínum hlut í félaginu til OR og var gengið frá yfirlýsingu um slík viðskipti í sumar í samkomulagi stærstu hluthafa.