Frestur til þess að sækja um leiðréttingu á höfuðstól fasteignalána rennur út í kvöld. Um 65 þúsund manns hafa nú sótt um leiðréttinguna og standa um 100 þúsund einstaklingar að baki umsóknunum. Þá hafa um 23 þúsund manns sent inn umsóknir vegna sérstakrar ráðstöfunar á séreignarsparnaði.

Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri skuldaleiðréttingarinnar, segir í samtali við Vísi að þeir sem ekki sæki um leiðréttingu á höfuðstól fasteignalána fyrir lok dagsins verði af leiðréttingunni. Þá segir hann að þótt þeir sem hyggist nýta skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar þurfi ekki að sækja um fyrir lok dagsins verði þeir af fyrstu tveimur mánuðum úrræðisins ef beðið er með umsóknina.

Hægt er að sækja um leiðréttingu á vefsíðu ríkisskattstjóra, leidretting.is . Þá er þjónustuver ríkisskattstjóra opið frá kl. 09:30 - 18:00 í dag.