Sænska hagkerfið er á fullri ferð og ber að þakka ábyrgri stjórn á fjármálum hins opinbera fyrir það. Svo hljómuðu skilaboð Anders Borg, fjármálaráðherra Svíþjóðar, og Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra landsins, nýlega þegar ríkisstjórnin lagði fram fyrstu drög að fjárlagafrumvarpi sínu fyrir næsta ár. Fyrstu tillögu ber að skila á vori, fyrir 15. apríl hvert ár, og lokafrumvarpi ber að skila 20. september. Víst er að sænska þjóðarskútan hefur hingað til staðið af sér brælu undanfarinna ára á hafi efnahagsmála; til marks um það eru góð uppgjör stórra sænskra fyrirtækja á borð við Ericsson og Volvo að undanförnu og 5,5% hagvöxtur á síðasta ári samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins og hagvaxtarspá sama ráðuneytis upp á 4,6% fyrir yfirstandandi ár. Þá er gengi sænsku krónunnar óvenju sterkt um þessar mundir.

Útlitið virðist sannarlega gott en þó eru ýmsar blikur á lofti við sjóndeildarhringinn sem, ef allt fer á versta veg, gætu valdið sænskum stjórnvöldum miklum vanda á næstu misserum. Fyrir þá sem fylgdust með þróun efnahagsmála á Íslandi á árunum 2005-2008 er ansi margt í sænska hagkerfinu nú sem minnir á þá þróun. Mikil þensla er í hagkerfinu, 5% hagvöxtur er yfirleitt frekar til marks um þenslu en efnahagslegan stöðugleika enda hefði Riksbanken ekki hækkað vexti jafnoft að undanförnu og raun ber vitni nema hann hefði áhyggjur af þenslunni. Ofan í þenslu hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún muni lækka tekjuskatta um áramót, sé þess nokkur kostur. Skattalækkanir eru sem kunnugt er yfirleitt þensluhvetjandi og má velta vöngum yfir því hversu heppilegt það er að gefa vél sem þegar er vel heit inn meira eldsneyti. Einkaneysla er drifin áfram af lánsfé og hefur Stefan Ingves seðlabankastjóri oftar en einu sinni og oftar en tvisvar varað við þeirri þróun og hvatt almenning til þess að leggja fyrir frekar en að eyða. Eins og áður segir hefur Riksbanken hækkað stýrivexti oft að undanförnu, nánar tiltekið sjö sinnum á einu ári og hafa stýrivextirnir hækkað um 1,5 prósentustig á þessum tíma. Ekki er ósennilegt að Stefan Ingves og félagar hans hefðu viljað hækka vexti enn meira en óttinn við að hrægammar fjármálamarkaðarins myndu stökkva á tækifærið til vaxtamunarviðskipta ku vera mikill.

Gengi sænsku krónunnar gagnvart evru
Gengi sænsku krónunnar gagnvart evru

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Fasteignabóla og Calmfors

Fasteignaverð hefur einnig hækkað mikið í Svíþjóð á undanförnum misserum og var hækkunin á síðasta ári t.d. sú mesta í allri Evrópu. Flestir sem til þekkja tala um bólu en því ber að halda til haga að ekki eru allir sammála þar um og benda sumir á að þróun fasteignaverðs hagi sér alls ekki eins og bóla. Meðal þeirra er Hans Lind, prófessor í fasteignahagfræði við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi, sem hefur látið hafa það eftir sér að erfitt sé að átta sig á eðli hækkananna. Einn af þeim þáttum sem nefndir hafa verið er að Svíþjóð mun vera eina landið í allri Evrópu þar sem kauptilboð í fasteign eru ekki bindandi. Þetta ýtir undir að ættingjar eða vinir fasteignaseljenda geta boðið í eignina án þess að eiga nokkurn tíma á hættu að þurfa að standa við tilboðið. Þannig má þrýsta verðinu upp og óneitanlega vakna spurningar um hvort hér sé ekki á ferðinni einhvers konar markaðsmisnotkun.

Þá hefur SBAB, sænski íbúðalánasjóðurinn, ekki farið leynt með að hann á í samkeppni við bankana um hylli íbúðakaupenda, sem óneitanlega minnir á stöðu mála á íslenskum íbúðalánamarkaði fyrir nokkrum árum. Meira að segja hafa heyrst og sést auglýsingar um íbúðalán frá SBAB en það er fleira sem minnir á Ísland á fyrstu árum 21. aldarinnar. Finanspolitiska rådet er eftirlitsaðili, eins konar þjóðhagsstofnun, sem sænska ríkisstjórnin kom á fót árið 2007 og var Lars Calmfors, virtur sænskur hagfræðiprófessor, skipaður formaður þess. Hlutverk ráðsins er að veita ríkisstjórninni aðhald í efnahagsmálum og hefur það rækt hlutverk sitt af mikilli kostgæfni en Anders Borg, fjármálaráðherra, hefur hingað til svarað gagnrýni ráðsins fullum hálsi og jafnvel gengið svo langt að minna Calmfors á að stofnunin heyrir undir ríkisstjórnina en ekki þingið. Nú er svo komið að Calmfors hefur tilkynnt að hann muni ekki sækjast eftir framlengingu í sumar þegar ráðning hans rennur út.

Taka ber fram að vitaskuld er alls ekkert víst að sænska hagkerfið verði fyrir áföllum á næstunni en ýmis hættumerki eru til staðar.

Greinin birtist í nýjasta Tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.