„Þótt raunvextir Seðlabankans hafi haldið áfram að lækka eru fjármálaleg skilyrði heimila og fyrirtækja enn erfið. Nú er talið að efnahagssamdrátturinn á síðasta ári hafi verið heldur meiri en bankinn spáði í febrúar.“ Á þessum orðum hefst samantekt þjóðhagsspár Seðlabankans í Peningamálum 2/2011 sem kynnt voru á miðvikudag í dymbilviku, síðasta virka dag fyrir páska. Hafi „aukin bjartsýni“ verið orð dagsins þegar Peningamál 1/2011 og þjóðhagsspá voru kynnt í byrjun febrúar má segja að „aukin svartsýni“ hafi verið orð dagsins fyrir viku.

Áfram er haldið: „Kröftugri vöxtur innflutnings er einnig meginskýring þess að hagvaxtarhorfur fyrir þetta ár hafa heldur versnað frá því í febrúar. Útlit er einnig fyrir minni hagvöxt á næstu tveimur árum.“ Horfur á vinnumarkaði hafa versnað að mati bankans auk þess sem verðbólguhorfur hafa versnað. Flest ber að sama brunni og skal engan undra að fyrirsögn spárinnar sé: „Lakari efnahagshorfur og meiri óvissa.“ Ekki er þó allt hlaðið neikvæðni og ber að halda því til haga að Seðlabankinn stendur við það mat sitt að efnahagsbati sé hafinn þótt enn sé hann veikur og slaki til staðar í þjóðarbúskapnum. Því ber sömuleiðis að halda til haga að mat bankans á innlendri eftirspurn sé óbreytt, einkaneysla fer vaxandi, og skýrist frávikið frá fyrri spá af því að hin aukna eftirspurn beinist yfir í innflutning en aukinn innflutningur dregur samkvæmt skilgreiningu úr hagvexti.

Launahækkanir meiri og framhlaðnari

Það sem upp úr stendur þegar rennt er yfir spána er hversu mikið óvissa um horfur í efnahagsmálum hefur aukist síðan febrúarspáin var birt og er niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave nefnd sem helsta ástæða þess. Óvissa um niðurstöðu kjaraviðræðna hefur án vafa einnig sitt að segja en sú óvissa sem kjaraviðræðum fylgir þarf þó endilega ekki að hafa neikvæð áhrif á spána.

Eins og fram kemur í spánni eru líkur á því að launahækkanir verði meiri og framhlaðnari en áður hefur verið gert ráð fyrir. Þetta er meðal þeirra þátta sem valda því að verðbólguhorfur hafa versnað til skamms tíma litið og er talið að hún muni vera meiri en 3% á árinu. Áður var gert ráð fyrir að verðbólga myndi haldast undir 2,5% verðbólgumarkmiðinu út árið. Í þessu felst þó einnig að meiri launahækkanir munu ýta undir einkaneyslu, sem auk þess að skapa verðbólguþrýsting getur einnig stuðlað að auknum hagvexti, sérstaklega í ljósi framleiðsluslakans áðurnefnda sem þegar fram líða stundir gæti hæglega orðið til þess að dempa áhrif launahækkana á verðlag. Um þetta ríkir þó eins og áður segir töluverð óvissa en spáin endurspeglar möguleg skammtímaáhrif launahækkana á einkaneyslu.

Þrátt fyrir alla óvissu og lakari efnahagshorfur er það eins og áður segir mat hagfræðinga Seðlabankans að efnahagsbati sé hafinn. Því er áfram spáð að hagvöxtur verði á bilinu 2-3% á þessu ári og að hann verði drifinn áfram af innlendri eftirspurn einkaaðila en undir það falla bæði einkaneysla og fjárfesting einkageirans en eins og sjá má af töflu hefur spá um fjármunamyndun verið hækkuð. Áður hefur verið minnst á áhrif vöruskipta auk þess sem reiknað er með því að samneysla muni dragast saman á árinu.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, þar sem nánar er fjallað um málið.