Gert má ráð fyrir að um 25 þúsund flugvélar verði framleiddar á næstu 20 árum og að söluverðmæti þeirra verði um 3.100 milljarða Bandaríkjadala.

Þetta kemur fram í nýrri markaðsspá evrópska flugvélaframeiðandans Airbus en í spánni er gert ráð fyrir að frekar verði framleiddar stærri en jafnframt sparneytnari flugvélar á næstu árum. Rétt er þó að geta þess að hér er átt við alla flugvélaframleiðslu í heiminum, ekki bara frá Airbus.

Helstu þætti sem Airbus telur til í spá sinni og munu hafa áhrif á framleiðslu flugvéla á næstu árum eru færri en stærri hagkerfi, s.s. Evrópusambandið, fjölgun lággjaldaflugfélaga, fleiri stórborgir með hærri tíðni farþegafluga og loks endurnýjun eldri flugvéla.

Gera ráð fyrir að farþegum fjölgi um 4,7% árlega næstu 15 árin

Nokkur bjartsýnistónn er í markaðsspá Airbus. Þannig er fjallað um mikinn samdrátt sem varð í farþegaflugi eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 og aftur núna í kjölfar efnahagskreppunnar sem skollið hefur á heiminn. Hins vegar jókst tíðni farþegaflugs verulega á árunum 2003 – 2004 þó verulega hafi dregið úr því frá miðju ári 2007. Að mati Airbus mun fjöldi ferðamanna aukast aftur þegar rofar til á mörkuðum og gera má ráð fyrir að fjöldi ferðamanna gangi í bylgjum eins og áður.

Þannig gerir Airbus m.a. ráð fyrir því að fjöldi farþega aukist u 4,6% strax á næsta ári og að meðaltali aukist farþegafjöldi um 4,7% að meðaltali á ári næstu 15 árin. Í spá Airbus er þó gert ráð fyrir að einhver ár verði verri eða betri en önnur. Að mestu leyti er gert ráð fyrir fjölgun farþega í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu.

Gert ráð fyrir 850 nýjum fraktvélum á sama tíma

Þá gerir Airbus ráð fyrir því að fraktflugi fjölgi um 5,2% árlega, að meðaltali á sama tíma. Með tilliti til endurnýjunar fraktflugflotans gerir Airbus ráð fyrir að rúmlega 3.400 fraktflugvélar verði framleiddar á næstu tíu árum. Þar af eru þó aðeins gert ráð fyrir 850 vélum, að söluverðmæti 210 milljarða dala, en að öðrum vélum verði breytt úr farþegavélum í flutningavélar.

8,5 milljónir manna starfi í flugiðnaði eftir 20 ár

En það er fleira sem kemur fram í spá Airbus. Félagið vitnar í nýja greiningu Oxford Economics sem gerir ráð fyrir að innan tuttugu ára muni um 8,5 milljónir manna starfa í flugiðnaði og velta um 1.000 milljörðum dala af vergri heimsframleiðslu. Hér er aðeins átt við flugiðnaðinn sjálfan en ekki ferðaiðnaðinn sem myndi eins og gefur að skilja telja mun fleiri.