Breytingar í álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík stórauka framleiðsluverðmætin. Auk 57 milljarða króna fjárfestingu í Straumsvík kallar þetta á 26,5 milljarða króna virkjanaframkvæmdirhjá Landsvirkjun auk línulagna Landsnets.

Rio Tinto Alcan hefur ákveðið að verja 140 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 16 milljörðum króna, til breytinga á framleiðsluferli álversins í Straumsvík. Í stað barra verða framleiddar sívalar álstangir eða svonefndir boltar, sem eru verðmætari afurð. Önnur álver Rio Tinto Alcan í Frakklandi og á Bretlandi munu taka við hluta af barraframleiðslunni sem ISAL hefur sinnt fram til þessa. Gert er ráð fyrir að boltaframleiðsla hefjist í Straumsvík árið 2012 og að alfarið verði búið að skipta yfir í boltaframleiðslu fyrir árslok 2014. Verða þeir seldir viðskiptavinum í Evrópu og gert er ráð fyrir að um 40% verði notað í bílaiðnaði samkvæmt upplýsingum Ólafs Teits Guðnasonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs.

57 milljarðar og 620 ársverk

Þetta verkefni kemur til viðbótar við 41 milljarðs fjárfestingu (347 milljóna Bandaríkjadala) í uppfærslu á búnaði og 20% framleiðsluaukningu álversins sem tilkynnt var um 23. september sl. í kjölfar þess að endanlega var gengið frá langtímasamningi við Landsvirkjun um orkukaup álversins. Sú framkvæmd kallar á 470 ársverk. Samanlagt er því um að ræða framkvæmdir fyrir 57 milljarða króna sem skapa 620 ársverk. Vegna framkvæmdanna hægir á framleiðslunni á næsta ári sem nemur um 4.000 tonnum.

Úr 189 í 228 þúsund tonn

Framleiðsla álversins í dag er 189 þúsund tonn á ári og fer upp í 228 þúsund tonn við þessar breytingar. Til framleiðslunnar eru nú flutt inn um það bil 365 þúsund tonn af súráli á ári og fer það í um 440 þúsund tonn þegar framkvæmdum verður lokið 2014.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .