Ólíkt flestum íslenskum fjárfestingarfélögum var Hvalur hvorki skuldsettur né einblíndi á fjármálamarkaðinn. Fjárhagslegur styrkur Hvals er nú mikill og hafði breyting á uppgjörsmynt hlutdeildarfélagsins HB Granda þar mikið um að segja.

Starfsemi Hvals, eignarhaldið á fyrirtækinu og helstu eigendur eru sveipuð ákveðinni dulúð. Á dögunum greindi Viðskiptablaðið frá því að Hvalssamstæðan hefði tapað um 183 milljónum króna á síðasta rekstrarári, sem lauk í september í fyrra. Samstæðan býr yfir meiri fjárhagslegum styrk en íslensk fyrirtæki eiga að venjast á þessum síðustu og verstu tímum þegar haft er í huga að eigið fé hennar nam þá þrettán milljörðum króna.

Hvalreki á fjörur Hvals

Þegar gluggað er í reikninga Hvals sést glögglega að félagið er „de facto“ fjárfestingarfélag, einkum utan um sjávarútveg og tengdan iðnað. Dótturfélögin Vogun og Vænting eru kjölfestuhluthafar í HB Granda, Hampiðjunni og Nýherja. Rekstrarfélög tengd sjávarútvegi hafa komið ágætlega út úr þeim erfiðleikum sem hrjá íslenskt atvinnulíf þótt samstæðan fari ekki alveg varhluta af hruni fjármálakerfis eða gengiskreppunni. Aukinheldur var skuldsetning félagsins með eindæmum lág á íslenskan mælikvarða eins og 87% eiginfjárhlutfall ber glöggt vitni um.

-Nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins