Hæstiréttur mun í lok vikunnar taka fyrir mál ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo gegn íslenska ríkinu vegna endurgreiðslukröfu og búast má við því að dómur verði kveðinn upp í lok þessa mánaðar.

Í byrjun árs 2007 krafði Ipregilo íslenska ríkið um endurgreiðslu skatta upp á 1.230 milljónir og er það stærsta endurgreiðslukrafa sem gerð hefur verið á hendur íslenska ríkinu. Impregilo hafði verið gert af skattayfirvöldum að greiða staðgreiðslu af launum portúgalskra starfsmanna sem unnu hér á landi á vegum starfsmannaleiganna Select og NETT.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að endurgreiða félaginu upphæðina, auk vaxta, í lok árs 2008. Fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar en málið verður tekið fyrir á föstudaginn í þessari viku.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nemur vaxtakrafa Impregilo um einum milljarði króna og samtals hljóða endurgreiðslukrafa félagsins því upp á rúma 2,2 milljarða króna.

Forsaga málsins

Forsaga málsins er sú að við upphaf byggingarframkvæmda við Kárahnjúkastíflu deildu Ríkisskattstjóri og Impregilo um hvort félaginu bæri að greiða staðgreiðslu af launum portúgalskra starfsmanna sem hér störfuðu á vegum starfsmannaleiganna tveggja.

Impregilo taldi að starfsmannaleigurnar ættu sjálfar að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna sinna starfsmanna. Yfirskattanefnd úrskurðaði að Impregilo ætti að greiða staðgreiðsluna og til að fyrirtækið gæti haldið starfsemi sinni hérlendis áfram féllst Impregilo á að greiða staðgreiðsluna líkt og félagið væri launagreiðandinn. Það var þó gert með þeim fyrirvara að Impregilo myndi leita réttar síns fyrir dómstólum og gera kröfu um endurgreiðslu ef úrskurðað yrði fyrirtækinu í hag.

Fyrra dómsmálið – krafa niðurfellingu á úrskurði skattstjóra

Impregilo stefndi íslenska ríksinu og krafðist þess að felld yrði úr gildi sú niðurstaða yfirskattanefndar í úrskurði nr. 95/2005 frá 20. apríl 2005 að félaginu bæri að greiða staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launa portúgalskra starfsmanna. Hæstiréttur dæmdi Impregilo í vil þann 20. september 2007.

Seinna dómsmálið – krafa um endurgreiðslu

Impregilo stefndi í framhaldinu fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, og krafist endurgreiðslu á öllum skattgreiðslum vegna starfsmannleiganna.

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur bar íslenska ríkinu að greiða Impregilo vexti af einstökum hlutum kröfunnar, allt frá byrjun árs 2004 til 25. október 2007. Frá þeim tíma bar ríkinu að greiða dráttarvexti af rúmlega 1.200 milljónum króna auk vaxtavaxta.  Sem fyrr segir áfrýjaði fjármálaráðherra dómnum og í lok vikunnar er komið að fyrirtöku.