Ekkert íslenskt fyrirtæki er með jafn miklar eignir umfram skuldir og Landsvirkjun. Eru þar meðtaldir endurreistu bankarnir þrír, Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn. Eigið fé Landsvirkjunar var í lok árs 2010 1,64 milljarðar dollara eða sem nemur um 192 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið var 34% um áramót og hækkaði um tvö prósentustig milli ára. Til samanburðar má nefna að eigið fé Íslandsbanka nam á sama tíma 121,5 milljarði og Arion banka 109,5 milljörðum króna. Þrátt fyrir mikið eigið fé og sterka stöðu á flestum mælikvörðum, þá er að mörgu að hyggja þegar rekstur félagsins á árinu 2010 er skoðaður. Annað árið í röð er sú leið valin að gefa upp nákvæmlega söluverð á raforku til stóriðju, sem vegur langsamlega mest á tekjuhlið fyrirtækisins. Það er því af sem áður var, þegar leggjast þurfti í umtalsverða reikningsvinnu til þess að fá fram hvert söluverðið á raforkunni væri. Því var haldið leyndu á grundvelli samkeppnissjónarmiða en sú leynd hefur verið afnumin.

Sveiflur hafa áhrif á rekstur

Verðsveiflur á áli höfðu mikil áhrif á rekstur Landsvirkjunar í fyrra líkt og árin á undan. Tekjur fyrirtækisins sveiflast með álverði, sem fyrirtækið ver sig síðan fyrir með afleiðusviðskiptum. Þannig fengust 25,7 dollarar að meðaltali fyrir hvert selt megavatt af raforku í fyrra samanborið við 19,5 dollara árið 2009. Á milli 2008 og 2009 voru sveiflurnar enn meiri. Þegar heimskreppan skall á árið 2008 færðu fjárfestar fjármuni sína hratt yfir í ýmsar hrávörur, svo sem olíu, gull og ál. Þetta olli miklum hækkunum á hrávöru og náði álverð þá sögulegu hámarki, 3.300 dollurum á tonnið. Hálfu ári seinna, í byrjun árs 2009, var verðið hins vegar komið niður í 1.260 dollara sem þýddi í raun að rekstrargrundvelli margra álvera var ógnað. Þetta, þ.e. verðsveiflur á áli, er meginástæða mikilla sveiflna á tekjum Landsvirkjunar milli ára.

Álverð hefur frá því í byrjun árs 2009 hækkað nær samfellt. Staðgreiðsluverð er nú rúmlega 2.500 dollarar á tonnið samkvæmt upplýsingum frá London Metal Exchange.

Landsvirkjun hefur að undanförnu unnið að því að draga úr þessum áhættuþætti. Nýr orkusölusamningur við Alcan á Íslandi hf. var áfangi á þeirri leið en með honum var tekjutenging álverðs afnumin.

Innri breytingar

Landsvirkjun hefur gengið í gegnum töluverðar breytingar á undanförnum árum, einkum frá árinu 2008. Fyrirtækið hefur ekki staðið í miklum framkvæmdum á þessum tíma sem er mikil breyting frá árunum á undan. Nær samfelldu uppbyggingartímabili, þar sem þyngst vó uppbygging Kárahnjúkavirkjunar á árunum 2003 til 2008, er nú lokið og við hefur tekið breyting á innra starfi fyrirtækisins. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tók við starfi í byrjun árs 2010 og hefur frá þeim tíma unnið að því að gera fyrirtækið markaðs- og rekstrardrifið fremur en framkvæmdadrifið eins og það hefur verið til þessa. Samhliða þessari breytingu hefur verið mörkuð sú stefna að reyna eftir fremsta megni að tengja söluverð á raforku við markaðsverð á raforku í Evrópu og Bandaríkjunum. Það hefur margfaldast á síðustu árum og er umtalsvert hærra en það verð sem Landsvirkjun hefur fengið frá viðskiptavinum sínum hér á landi. Þetta ferli mun þó taka langan tíma, líklega um 20 ár, ef mið er tekið af framtíðarsýn sem Hörður kynnti fyrr á þessu ári.

Landsvirkjun
Landsvirkjun
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.

Halda að sér höndum

Allt frá hruni hefur Landsvirkjun haldið að sér höndum þegar kemur að framkvæmdum, ekki síst til þess að halda sterkri lausafjárstöðu til þess að mæta afborgunum á lánum. Landsvirkjun hafði um áramót tryggt sér aðgang að 573,2 milljónum dollara, eða um 65,9 milljörðum króna. Aldrei í sögu fyrirtækisins hefur lausafjárstaðan verið jafn sterk og nú í dollurum talið. Það skýrist ekki síst af því að framkvæmdir hafa litlar sem engar verið og fyrirtækið hefur lagt áherslu á að halda sterkri lausafjárstöðu út árið 2012 vegna gjalddaga á lánum.

Þá hefur nær algjör lokun erlendra lánamarkaða fram á þetta ár gert það að verkum að Landsvirkjun hefur ekki getað farið út í neinar framkvæmdir. Fyrsta skuldabréfaútgáfa íslensks fyrirtækis frá hruni var sú sem Landsvirkjun réðst í í samstarfi við Deutsche Bank á haustmánuðum í fyrra. Sú útgáfa bar reyndar háa vexti, 6,5%, en var upp á um 150 milljónir dollara. Landsvirkjun náði fyrir skemmstu samningum við Norræna fjárfestingarbankann um 70 milljóna dollara lán vegna uppbyggingar Búðarhálsvirkjunar. Lánið ber millibankavexti (Libor) auk álags. Ekki hefur verið gefið upp hversu hátt álagið er.

Þá hefur Evrópski fjárfestingarbankinn samþykkt lánveitingar til Landsvirkjunar vegna Búðarhálsvirkjunar upp á 70 milljónir dollara en óleyst Icesave-deila hefur fram á þetta ár komið í veg fyrir að stjórn bankans samþykki lánveitingar til Landsvirkjunar, eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu.

Mikið handbært fé

Góður mælikvarði á stöðu rekstrar Landsvirkjunar er hversu mikið handbært fé frá rekstri var í lok árs. Það var 229,6 milljónir dollara, 26,4 milljarðar króna, og jókst um 16,5% milli ára er það var 197 milljónir dollara. Til samanburðar voru rekstrartekjur 377,6 milljónir dollara, 43,4 milljarðar króna, sem er 10,3% aukning milli ára. EBIDTA (hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir) fyrirtækisins var 298,1 milljón dollara að teknu tilliti til innleystra áhættuvarna vegna sveiflu á álverði. EBIDTA hlutfallið nemur 78,9% af heildarveltu.

Ytra umhverfið

Landsvirkjun á mikið undir því að álverð haldist hátt þótt unnið sé að því markvisst innan fyrirtækisins að draga úr áhættu er því tengist. Forstjóri Rio Tinto, Tom Albanese, sagði í viðtali við íslenska fjölmiðla er hann kom hingað til lands fyrir jól að álverð sveiflaðist ekki síst eftir framleiðslukostnaði í Kína nú um stundir. Gríðarlegur vöxtur í Kína hefur viðhaldið eftirspurn eftir áli og mörgum öðrum hrávörum á þeim tíma er samdráttur hefur einkennt flest önnur hagkerfi. Albanese sagði ennfremur að hækkandi orkukostnaður víðs vegar gerði álframleiðendum erfiðara um vik. Að meðaltali á heimsvísu þyrfti verðið á áli að vera um 2.300 dollarar á tonnið til þess að standa undir sér. Álframleiðslan hér á landi er samkeppnishæf hvað þetta snertir, þar sem orkan hefur ekki hækkað með sama hætti hér á landi og erlendis. Landsvirkjun nýtur um margt góðs af þessu þar sem fyrirtækið er í betri samningsstöðu þegar kemur að endurnýjun samninga. Fyrirtækið getur framleitt rafmagn með minni tilkostnaði en mörg önnur alþjóðleg fyrirtæki og getur þannig boðið fyrirtækjum samkeppnishæft verð, en á sama tíma hækkað það frá því sem áður var.

Búðarháls og Norðausturland

Landsvirkjun hefur þegar hafið framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Samtals er áætlað að sú framkvæmd muni kosta rúmlega 200 milljónir dollara, eða sem nemur um 25 milljörðum króna. Landsvirkjun á nú í samningaviðræðum við mögulega kaupendur raforku frá jarðhitavirkjunum á Norðausturlandi. Er einkum horft til Þeistareykja, Kröflu og Bjarnarflags í því samhengi. Að sögn Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, standa nú yfir viðræður við átta áhugasama kaupendur. Fram hefur komið að Alcoa, sem unnið hefur að verkefninu allt frá árinu 2006, og kínverski álframleiðandinn Bosai Mineral Group eru þar á meðal. Uppbyggingin á svæðinu mun taka töluverðan tíma, að því er Landsvirkjun hefur upplýst um. Líklega mun taka allt að áratug að nýta auðlindirnar á svæðinu og greina hversu mikið það gefur af sér. Talið er að svæðið geti gefið af sér allt að 400 til 500 megavött af raforku sem nægir til þess að knýja álver með 250 þúsund tonna framleiðslugetu.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins ásamt ítarefni. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Töublöð.