Dómsmála- og samgönguráðuneyti munu sameinast, heilbrigðisráðuneyti verða hluti af velferðarráðuneyti og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti hluti af nýju atvinnumálaráðuneyti, samkvæmt hugmyndum sem ræddar hafa verið í ríkisstjórn á undanförnum dögum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sett sig upp á móti breytingum. Aðrir ráðherrar í ríkisstjórn eru hlynntir því breytingarnar gangi í gegn.

Mannabreytingar munu verða þó nokkrar á ríkisstjórninni gangi áformin eftir, eins og margt bendir til. Álfheiður Ingadóttir mun hætta sem heilbrigðisráðherra samkvæmt þeim. Árni Páll Árnason, núverandi félagsmálaráðherra, verður ráðherra velferðarmála, í sameinuðu félags- og heilbrigðismálaráðuneyti. Kristján Möller hættir að öllum líkindum sem ráðherra. Samfylkingin mun þó hafa innanríkisráðuneytið, sameinað ráðuneyti dómsmála-, samgöngu- og sveitarstjórnarmála, á sínum snærum og hefur Katrín Júlíusdóttir, núverandi iðnaðarráðherra, verið orðuð við þá stöðu.

Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir, sem hafa verið utanþingsráðherrar efnahags- og viðskipta og dómsmála, munu að öllum líkindum hætta sem ráðherrar og nýir koma inn í staðinn.

Þá sækja Vinsti græn það fast að halda nýju atvinnuvegaráðuneyti sem mun samanstanda af sameinuðu iðnaðar-, sjávarútvegs-, og landbúnaðarráðuneyti. Ögmundur Jónasson þykir líklegur til þess að taka við því ráðuneyti.

Í ráðherraliði Vinstri grænna verða því að öllum líkindum Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Ögmundur Jónasson.

Í ráðherraliði Samfylkingarinnar eru Jóhanna Sigurðardóttir, Árni Páll Árnason og Össur Skarphéðinsson örugg með ráðuneyti en ekki liggur endanlega fyrir hverjir munu skipa hin ráðuneytin tvö, þ.e. efnahags-, og viðskiptaráðuneyti og innanríkisráðuneyti.