Embætti sérstaks saksóknara hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna húsleita á fimm stöðum í Lúxemborg í dag. Í tilkynningunni segir að ekki sé unnt að gefa nánari upplýsingar um þau mál sem um ræðir vegna þess að rannsóknirnar eru á viðkvæmu stigi. Málin tengjast Kaupþingi.

Fréttatilkynning frá embætti sérstaks saksóknara:

„Í dag, þann 29. mars 2011, framkvæmdi lögreglan í Lúxemborg húsleitir samtímis á grundvelli réttarbeiðna frá embætti sérstaks saksóknara og Serious Fraud Office (SFO) í Bretlandi.

Alls voru framkvæmdar 2 húsleitir á grundvelli réttarbeiðna frá embætti sérstaks saksóknara, en visað er til fréttatilkynningar SFO dagsettri í dag um aðgerðir í þágu réttarbeiðna SFO.

Aðgerðirnar varða rannsóknir sérstaks saksóknara á málum er tengjast Kaupþingi banka, en sökum þess hve rannsóknirnar eru á viðkvæmu stigi er ekki unnt að gefa nánari upplýsingar um þau mál sem hér um ræðir.

Aðgerðirnar voru umfangsmiklar. Alls tóku 55 lögreglumenn frá lögreglunni í Luxemborg þátt í þeim, en 7 starfsmenn embættis sérstaks saksóknara voru þeim til aðstoðar.

Embætti sérstaks saksóknara er ekki unnt að gefa frekari upplýsingar um aðgerðirnar að svo stöddu.“