Stjórn Reiknistofu bankanna hf. hefur ráðið Friðrik Þór Snorrason sem næsta forstjóra félagsins en Helgi H. Steingrímsson, sem gengt hefur því starfi frá 1996, ákvað eftir 15 ára farsælan feril hjá félaginu að láta af störfum nú í febrúar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Jensína K. Böðvarsdóttir stjórnarformaður Reiknistofu bankanna lýsir ánægju með ráðningu Friðriks Þórs í tilkynningu.  „Friðrik hefur víðtæka reynslu af uppbyggingu tækni- og þjónustufyrirtækja og breytingarstjórnun, sem eru þeir kostir sem stjórnin leitaði að.  Reiknistofa bankanna stendur á ákveðnum tímamótum eftir að félaginu var breytt úr félagsamtökum í hlutafélag nú um áramótin.  Fyrirtækið þarf því traustan og metnaðarfullan leiðtoga sem mun leiða þróun þess í markaðsdrifið þjónustufyrirtæki.“

„Friðrik hefur gengt ýmsum stjórnunar og ráðgjafarstörfum innan tæknigeirans undanfarin 11 ár á Íslandi, Bandaríkjunum og Bretlandi.  Friðrik hefur verið framkvæmdastjóri tækni- og rekstarþjónustufyrirtækisins Skyggnis síðan 2008 en þar áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Nýherja.  Hann hefur jafnframt setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og samtaka og er í dag formaður Samtaka íslenskra gagnaversfyrirtækja.  Friðrik mun hefja störf hjá Reiknistofu bankanna í lok febrúar.

Friðrik er kvæntur Guðrúnu Wium Guðbjörnsóttir, forstöðumanni hjá TAL, en saman eiga þau tvo syni. Friðrik er með MSc í alþjóðasamskiptum frá London School of Economics og BA frá University of Wisconsin í sama fagi.

Reiknistofa bankanna var stofnuð 1973 og hefur til þessa verið rekin sem kostnaðareining.  Reiknistofa bankanna er traust og öflugt þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem þjónar bönkum, sparisjóðum og kortafyrirtækjum.  Félagið hefur þróað öll megin greiðslukerfi landsins og rekur fjárhags- og lánakerfi fyrir ýmsar fjármálastofnanir.  Hjá félaginu starfa 120 starfsmenn og var ársvelta þess 2.700 milljónir króna árið 2009,“ segir í tilkynningu.