Fríhöfnin ehf., nýstofnað dótturfélag Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE), tekur við verslunarrekstri FLE núna um áramótin. Fríhafnarverslunin verður þar með aðskilin rekstri FLE, bæði stjórnunar- og rekstrarlega. Fasteignarekstur flugstöðvarinnar, ásamt stoðsviðum, heyrir áfram undir FLE. Fríhöfnin ehf. kaupir þjónustu af stoðsviðum FLE samkvæmt sérstökum samningi félaganna. Fasteignasvið FLE annast áfram öll samskipti við rekstraraðila í flugstöðinni. Þetta fyrirkomulag er samkvæmt samþykkt stjórnar FLE hf. sem kynnt var samkeppnisyfirvöldum.

Íslenskur markaður ehf. verður rekinn áfram sem sérstakt dótturfélag FLE þar til niðurstaða er fengin í forvali um verslunarrekstur í flugstöðinni frá því í september 2004. Nýir rekstaraðilar í verslunarrekstri koma til sögunnar í flugstöðinni á grundvelli þessa forvals sem náði m.a. til allra vöruflokka í Íslenskum markaði. Nú fara í hönd viðræður við um þrjá tugi fyrirtækja sem tóku þátt í forvalinu og lýstu áhuga á verslunarrekstri í flugstöðinni. Óskað er eftir frekari viðræðum um nánari útfærslu hugmynda þeirra og tilheyrandi viðskiptaáætlanir.

Sturla G. Eðvarðsson verður framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf. Hann var áður forstöðumaður verslunarsviðs FLE. Kjörin hefur verið þriggja manna stjórn fyrirtækisins. Hana skipa Stefán Þórarinsson, formaður, Helga Sigrún Harðardóttir og Stefán Valgarð Kalmansson. Stefán Þórarinsson situr einnig í stjórn FLE en Helga Sigrún hefur sagt sig úr varastjórn FLE hf. til að sinna stjórnarsetu í Fríhöfninni ehf.