Félag atvinnurekenda (FA) hefur sent Bjarna Benediktsyni fjármálaráðherra erindi og óskað eftir því að ráðuneytið upplýsi um  afstöðu sína til pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Leifsstöð, svokallaðrar Express-þjónustu á netinu. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu félagsins.

„Fríhöfnin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur að undanförnu auglýst grimmt á netinu svokallaða „Express-þjónustu“, sem er í raun vefverzlun þar sem hægt er að panta vörur án opinberra gjalda, fá þær afhentar í verzlun Fríhafnarinnar og greiða þær þar. Viðskiptavinurinn getur valið hvort varan er afhent í brottfarar- eða komuverzlun. Ekki verður séð að neitt komi í veg fyrir að sá sem pantar á netinu fái vini eða vandamenn sem eiga leið til útlanda til að sækja vörurnar fyrir sig,“ segir í bréfi félagsins.

Segir FA að markaðsherferðir Fríhafnarinnar, þar sem vakin sé athygli á þessari þjónustu, séu þáttur í afar óeðlilegri samkeppni ríkisins við verzlunarfyrirtæki í landinu. Rekstur Fríhafnarinnar fari sífellt lengra út fyrir það sem teljast megi eðlileg skilgreining á „fríhafnarverzlun fyrir ferðamenn“.

Þá tekur FA undir ábendingar Viðskiptaráðs frá því í nóvember á síðasta ári að Express-þjónustan þýði í raun að ekki sé nauðsynlegt að fara af landi brott til að kaupa vörur án opinberra gjalda, þar sem flestir eigi auðvelt með að finna einhvern til að sækja vörurnar á leið um flugstöðina.

Nánar má lesa um erindið hér.