Friðrik Jóhannsson, fráfarandi forstjóri Burðaráss, hefur keypt 52% hlut í TM Software (Tölvumyndir eins og félagið hefur verið nefnt í daglegu tali). Í samtali við Viðskiptablaðið í gær staðfesti Friðrik að búið sé að ganga frá kaupunum. "Ég hef haft áhuga á því að fara út í eigin rekstur eftir að hafa verið stjórnandi í fyrirtækjum síðustu 17 ár," segir Friðrik um ástæður kaupanna. "TM Software er framsækið fyrirtæki á sínu sviði og því spennandi fjárfestingarkostur."

Alls keypti Friðrik 52,3% hlut í TM Software, 41,3% af Burðarási og 11% hlut Brúar Venture Capital, sem er dótturfélag Straums fjárfestingarbanka. Kaupverðið fæst ekki gefið upp.

TM Software er leiðandi fyrirtæki á sviði eigin hugbúnaðarlausa m.a. fyrir fjármálamarkað, orkuveitur, sjávarúteg og heilbrigðiskerfið. Velta fyrirtækisins er um fjórir milljarðar króna á ári og hjá því vinna um 400 starfsmenn í 12 löndum. TM Software leggur áherslu á "þróun, sölu og þjónustu á eigin hugbúnaði og heildarþjónustu til viðskiptavina í samstarfi við helstu upplýsingatæknifyrirtæki heims, svo sem Microsoft, IBM, Oracle, CA og Swisslog," eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins. Þá hefur fyrirtækið í fjórgang hlotið viðurkenningu sem eitt af 500 framsæknustu fyrirtækjum í Evrópu og hlotið Microsoft Gold-viðurkenningu frá Microsoft.

Friðrik Sigurðsson, forstjóri TM Software, er annar stærsti hluthafinn með 17% hlutafjár en meðal hluthafa eru FL Group, KB banki og Tryggingamiðstöðin.

Friðrik Jóhannsson mun taka við stjórnarformennsku í TM Software á hluthafafundi sem haldinn verður síðar í mánuðinum.