Friðrik Jónsson, formaður Framsóknarfélags Akraness sækist eftir því að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Friðrik.

„Ég býð fram krafta mína, ekki aðeins í þágu Norðvesturkjördæmis heldur í þágu landsins alls í ljósi þess mikla uppbyggingarstarfs sem fyrir höndum er,“ segir Friðrik í yfirlýsingunni.

„Það er erfitt verk fyrir höndum. Nauðsynlegt er að byggja upp traust á stjórnvöldum og stofnunum samfélagsins og kallar það á ný og gegnsæ vinnubrögð. Mikilvægt er að vel takist til. Við höfum ekki efni á mistökum. Sá kvóti er uppurinn.“

Friðrik segir að nú sem aldrei fyrr sé þörf á uppbyggingu og endurreisn alþjóðlegra tengsla landsins, svo bætt verði fyrir þau mistök sem gerð voru í samskiptum við okkar helstu vinaþjóðir.

„Aldrei aftur megum við finna okkur á alþjóðlegu bersvæði, óstudd og óvölduð,“ segir Friðrik.

„Í á fjórtánda ár hef ég notið þeirrar gæfu að vinna í þjónustu þjóðarinnar innan íslenskrar stjórnsýslu, bæði innanlands og erlendis. Það hefur gefið mér dýrmæta innsýn og fjölbreytta reynslu sem mun nýtast vel til þeirra átaksverkefna sem framundan eru.“