Frjáls verslun hefur tilkynnt um að Róbert Guðfinnsson, athafnamaður, sé maður ársins í íslensku atvinnulífi. Hann hefur fjárfest fyrir tæpa fjóra milljarða á Siglufurði og Viðskiptablaðið greindi meðal annars frá því þann 18. desember síðastliðinn að Róbert hygðist opna Sigló Hótel, sem verður 68 herbergja hótel við smábátahöfnina og verður opnað eftir rúmlega hálft ár.

Róbert var áður forstjóri útgerðarfyrirtækisins Þormóðs ramma og hefur hann notað fé sem honum áskotnaðist í starfi sínu fyrir útgerðina til fjárfestinganna. Frjáls verslun hyggst veita verðlaunin á Radisson Blu á hótel Sögu í dag.

Fjárfestingar sem gagnast Siglufirði

„Í mati sínu lagði dómnefndin til grundvallar stórhug og framsæknar fjárfestingar hans í siglfirsku samfélagi sem tengjast fjárfestingarstefnu um sameiginleg verðmæti og samfélagslega ábyrgð til góðs fyrir íslenskt samfélag, þekkingu og menningu. Róbert fjárfestir bæði í innviðum siglfirsks samfélags samhliða einkafjárfestingum sínum – og styðja þær fjárfestingar vel við hvor aðra. Það er fjárfestingarstefna sem kennd hefur verið við sameiginleg verðmæti í stjórnun,“ segir í tilkynningu frá Frjálsri verslun vegna verðlaunanna.

Þá segir að fjárfestingar Róberts á Siglufirði séu fjölbreyttar og muni að líkindum lokka menntaða einstaklinga til bæjarins í auknum mæli.