Fyrsti dagurinn í námsferð MBA nemenda við HR til Boston borgar í Bandaríkjunum á dögunum fór í heimsóknir til starfsstöðva Amazon og Google í borginni, ásamt heimsókn í tvo nýsköpunarhraðla MIT skólans, annars vegar á vegum Sloan viðskiptaskólans og hins vegar hraðal sem Svava Grönfeldt stýrir. Ferðin var lokahnykkurinn í tveggja ára námi MBA nemendanna sem kennt er í lotum með vinnu, og var hún hluti af námskeiði um frumkvöðlafræði sem Magnús Orri Schram kennir.

Starfsstöð Amazon í borginni er ein helsta þróunarmiðstöð gervigreindar fyrirtækisins, og sögðu starfsmenn frá þróun og hönnun Alexa frá því að gervigreindin gat framkvæmt um 13 mismunandi verkefni í nú yfir 80 þúsund. Starfsstöð Google í Boston borg þótti svo einstaklega flott, með gríðarlega fallegum garði, kaffistofum innan 500 metra frá hverri starfsstöð, herbergjum til að leggja sig, hlaupabrettum og svo mætti lengi telja. Fengu nemendur þar skemmtilega innsýn í starfsemi fyrirtækisins frá pallborði starfsmanna, meðal annars hinum íslenska Sigurði Erni Aðalgeirssyni.

Næstu tveir dagar ferðarinnar fóru svo í námskeiðshald hjá Babson viðskiptaháskólanum sem HR er í samstarfi við. Úr skólanum hafa komið margir helstu framámenn í viðskiptalífi heimsins, og má þar nefna Akio Toyoda, forstjóra Toyota fyrirtækisins. Arna Ýr Sævarsdóttir, einn nemendanna í ferðinni, segir námskeiðið í Babson vera góða viðbót við nám síðustu tveggja ára.

„Einhvern veginn tókst kennaranum að binda allt saman sem við höfum lært í námskeiðinu sem ferðin er hluti af. Námskeiðið snýst um nýsköpun, en ég upplifi þetta sem eitthvað miklu meira, þar sem við erum að læra hvernig fyrirtæki hegða sér á markaði, og ná þeir að tengja inn á allt sem við erum búin að vera að læra,“ segir Arna Ýr.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Í samstarfi með íslenskum frumkvöðlum

Magnús Orri segir Háskólann í Reykjavík leggja mikið upp úr alþjóðatengslum í sínu námi. „Ég kenni kúrs sem heitir Entrepreneurship, þar sem ég legg mikið upp úr lifandi kennslu og virkri þátttöku nemendanna, sem þá bæði heimsækja frumkvöðla og fá þá í heimsókn í kennslustundir, og vinna svo verkefni með þeim,“ segir Magnús Orri.

„Við vinnum kúrsinn með Icelandic Startups, þannig að við auglýsum meðal þeirra sem hafa farið í gegnum nýsköpunarhraðlana hjá þeim um að þeir geti sótt um að koma í samstarfsverkefni með MBA nemendunum. Í vor valdi ég átta fyrirtæki og frumkvöðla, og skiptum við nemendunum upp í fimm til sex manna hópa sem unnu hver með einu fyrirtæki.

Þar fara þeir í ráðgjafahlutverk með frumkvöðlunum, enda margir með víðtækan bakgrunn og þekkingu úr atvinnulífinu, og síðan eru þau orðin vel lesin enda að klára metnaðarfullt háskólanám. Þá hjálpa þau frumkvöðlunum með allt frá markaðssókn og stefnumótun til aðstoðar í sölumálum og leit að fjármögnun. Þannig fara nemendurnir í stöðu ráðgjafans til að veita nýstofnuðum fyrirtækjum stuðning en læra á sama tíma mjög mikið sjálf.“

Magnús Orri segir Babson viðskiptaháskólann vera mjög framarlega í frumkvöðlafræðum. „Þeir voru eiginlega með þeim fyrstu í heiminum sem skynjuðu mikilvægi þess að rýna betur í það hvernig fólk stofnar fyrirtæki og hafa þeir verið í fararbroddi síðan,“ segir Magnús Orri.

„Einnig var mjög lærdómsríkt að heimsækja MIT. Fyrirlestur Svövu Grönfeldt var mjög áhugaverður, en í hraðlinum sem hún stýrir er hún að tengja saman hönnun, viðskipti og nýjustu framþróun í tækni. Hún sagði frá þeirri mjög áhugaverðu nýsköpun sem er að eiga sér stað þar sem þessir þræðir mætast, sem þau svo leggja rækt við. Nemendurnir voru alveg í skýjunum með ferðina. Það sást hvað það gefur þeim mikið að fara út, heimsækja bæði skóla og fyrirtæki og svo setjast á skólabekk annars staðar, og hef ég trú á því að þetta geti opnað mjög skemmtilegar dyr fyrir nemendur HR.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .