Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), segir að rekstur Icelandic Group í Bandaríkjunum og Kína verði boðnar út saman. Framtakssjóðurinn hefur hætt viðræðum við Triton fjárfestingasjóð um kaup á erlenda hluta félagsins.

Viðræður við Triton hafa snúist um allan erlenda rekstur Icelandic. Í kjölfar þess að viðræðum við Triton er hætt hefur verið ákveðið að bjóða í opnu söluferli einingarnar í Bandaríkjunum og Kína. Icelandic er einnig með rekstur í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi, líkt og lesa má um í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins .

„Nú tekur við áframhaldandi vinna við fjárhagslega- og rekstrarlega endurskipulagningu félagsins. Einn liður í því er að skoða sölu á rekstri Icelandic í Bandaríkjunum og Kína, ef áhugavert tilboð berst,“ segir Finnbogi í samtali við Viðskiptablaðið.

Finnbogi segir að viðræðum við Triton hafi verið hætt vegna þess að ákveðið var að taka ekki lokatilboði Triton. Aðrir þætti hafi ekki komið nærri ákvörðuninni en söluferlið hefur verið gagnrýnt fyrir að vera ekki opið. Meðal annars hafa erlendir fjárfestar gagnrýnt þá ákvörðun FSÍ að ræða eingöngu við Triton.