Í ákvæðum Icesave-samningsins er tekið tillit til skuldabyrði Íslands „og reynist afborganir of erfiðar er sest aftur að samningum," segir á upplýsingavef stjórnvalda, Island.is.

Verði sest aftur að samningaborðinu eftir sjö ár, skv. þessum ákvæðum, verður samningsstaða okkar þó „flókin," segir á vefnum, en því bætt við að „ þá ættum við að hafa stuðning alþjóðasamfélagsins."

Á Island.is má finna svör við ýmsum spurningum um Icesave-viðræðurnar og samninginn við Breta og Hollendinga sem forsætisráðherra hyggst fá samþykktan á Alþingi.

Þar segir meðal annars að samningurinn tengist ekki með neinum hætti hugsanlegri aðildarumsókn að Evrópusambandinu. „Nei, skuldbinding Íslands byggist á EES samningnum," segir á vefnum.

Í fréttatilkynningu frá stjórnvöldum segir að samningarnir við Breta og Hollendinga verði kynntir alþingismönnum í dag og í kjölfarið gerðir almenningi opinberir.