Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, munu í dag hittast á fundi í Berlín í Þýskalandi þar sem þau munu ræða skuldavanda Evrópuríkja. Þau Merkel og Sarkozy hafa ekki verið sammála um hvernig nota skuli björgunarsjóði til þess að aðstoða ríki innan ESB í skuldavanda.

Gera má ráð fyrir að Grikkland verði leiðtogunum ofarlega í huga en viðmælendur helstu fjölmiðla, bæði í Bretlandi og á meginlandinu, telja að það hvernig leyst verður úr vanda Grikklands gefi fordæmi um hvernig leysa skuli úr komandi vanda ríkja á borð við Portúgal, Ítalíu, Spán, Írland og fleiri.

Hrun belgíska bankans Dexia í vikunni hefur orðið til þess að meiri spenna ríkir nú meðal stjórnmálamanna á meginlandinu og gera má ráð fyrir því að fleiri bankar í Belgíu, Þýskalandi og Frakklandi muni lenda í erfiðleikum á næstunni. Reuters fréttastofan hefur eftir heimildarmanni innan franska forsætisráðuneytisins að þau Merkel og Sarkozy muni án efa ræða málefni Dexia á fundi sínum í dag en þó sé Grikkland og evrusvæðið í heild megin umræðuefnið.

Allt stefnir í það að Grikkland fari, að öllu óbreyttu, í greiðsluþrot um miðjan nóvember og því er leiðtogum innan evrusvæðisins nokkur vandi á höndum. Nú er um það rætt hvort koma eigi Grikklandi til bjargar með einhverjum hætti og jafnframt hvort kröfuhafar Grikklands, sem eru í flestum tilvikum evrópskir bankar, verði látnir taka á sig stærri högg, eins og það er orðað í frétt Bloomberg fréttaveitunnar, af lánum sínum til Grikklands.

Sem fyrr segir hafa leiðtogar Þýskalands og Frakklands ekki verið sammála um hvernig nota skuli neyðarsjóði til þess að koma ríkjum í vanda til aðstoðar og hvernig endurfjármagna eigi evrópska banka sem lent hafa í vandræðum vegna erfiðleika einstakra ríkja. Ágreiningurinn snýr fyrst og fremst að því hvernig nota eigi sérstakan 440 milljarða evra sjóð um fjármálastöðugleika (EFSF).