Þingfundur stóð yfir á Alþingi í gær allt til miðnættis. Til umræðu var skýrsla sem Hagfræðistofnun vann fyrir utanríkisráðherra um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið.

Ekki tókst að ljúka umræðunum í gær og samkvæmt dagskrá munu þær halda áfram í dag. Hart var deilt á Alþingi í gær þar sem stjórnarmeirihlutinn var sakaður um svik vegna þingsályktunartillögu um að draga ESB-umsóknina til baka. Gengu deilurnar svo langt að þegar atkvæði voru greidd um það hvort funda ætti fram á kvöld voru þau greidd með nafnakalli. Slíkt er afar fátítt, ef ekki einsdæmi.