*

mánudagur, 23. nóvember 2020
Innlent 7. maí 2012 09:34

Fundað um spjaldtölvur í menntamála-ráðuneytinu

„Áhyggjuefni að allt notendaviðmót spjaldtölva og lesbretta er á ensku“

Ritstjórn
Spjaldtölvan Kindle
Haraldur Guðjónsson

Mennta-  og menningarmálaráðherra hefur boðað til fundar klukkan 10 í dag með ýmsum hagsmunaaðilum um stöðu íslenskrar tungu gagnvart spjaldtölvum og lesbrettum í grunnskólum. Notkun slíkra tækja hefur verið að ryðja sér til rúms í nokkrum skólum að undanförnu en meðal annars hafa nemendur í Vogaskóla fengið lesbretti sem tilraunaverkefni í skólanum.

„Íslensk málnefnd og Samtök móðurmálskennara telja nauðsynlegt að gera gangskör að því að útbúa vandað námsefni á íslensku til að nota í þessum nýju tækjum. Einnig er það áhyggjuefni að allt notendaviðmót spjaldtölva og lesbretta er á ensku,“ segir meðal annars í fundarboðinu. Þar er einnig áréttað að árið 2009 hafi verið mörkuð sú stefna að allur almennur notendahugbúnaður í íslensku skólakerfi verði á íslensku innan þriggja ára.

Á þriðja tug aðila hafa verið boðaðir á fundinn frá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum. Þar á meðal eru aðilar frá Epli.is og Microsoft, fulltrúar skóla, námsgagnaframleiðanda og stjórnvalda.