Föstudaginn 9. nóvember býður tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík til morgunverðarfundar með Ed Crawley, prófessor við MIT háskóla og frumkvöðli CDIO samstarfsnetsins. Í tilkynningu frá Háskólanum segir að samkvæmt hugmyndafræði CDIO sé árangursríkast að kenna verk- og tæknifræðingum framtíðarinnar með því að setja fræðilegar undirstöðugreinar í samhengi við raunveruleg viðfangsefni. Þannig verði nemendur móttækilegri og færir um að öðlast dýpri skilning á fræðilegu námsefni, auk þess að öðlast færni í að sjá tækifæri til hagnýtingar. Jafnframt þurfi að þjálfa nemendur markvisst í hópastarfi.

Háskólinn í Reykjavík gekk árið 2011 til liðs við CDIO sem er alþjóðlegt samstarfsnet ríflega 80 háskóla sem kenna tæknigreinar og hafa sameiginlegan metnað um og sýn á hvað felist í framúrskarandi menntun verkfræðinga og tæknifræðinga.

Í tilkynningunni er haft eftir Guðrúnu Sævarsdóttur, forseta tækni- og verkfræðideildar HR að þeir háskólar sem eru aðilar að CDIO vinni út frá því að námsefnið sé kennt í samhengi við starfssvið verkfræðingsins eða tæknifræðingsins. HR Leggi áherslu á að veita nemendum fræðilega dýpt í samhengi við raunhæf verkefni.

Fyrirlesturinn á föstudag er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Hann verður í stofu M209 og hefst klukkan 9.00 en boðið er upp á morgunverð frá klukkan 8.30.