Myndaður hefur verið vinnuhópur ríkislögreglustjóra og Tollstjóra vegna innflutnings, sölu og dreifingar á grunnefnum sem nýta má til sprengjugerðar.

Frá þessu er greint á vef Ríkislögreglustjóra en hópinn skipa fulltrúar Tollstjóra og greiningardeildar og sérsveitar ríkislögreglustjóra. Markmið starfsins er að afla upplýsinga um skipan þessara mála hérlendis, löggjöf, leyfaveitingar og eftirlit og koma á samstarfi við aðrar stofnanir sem fara með sviðsábyrgð á þessum málaflokkum.

Þá kemur fram að vinnuhópurinn hefur þegar leitað eftir samstarfi við opinberar stofnanir sem hafa eftirlit með slíkum efnum í því skyni að takmarka eftir föngum möguleika einstaklinga eða hópa til að setja saman sprengjur úr annars löglegum efnum.