„Við teljum að staða fyrirtækja sé verri nú, til að takast á við launahækkanir, en við bjuggumst við þegar kjarasamningar voru undirritaðir,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, um kjarasamninga. Í janúar er komið að endurskoðun kjarasamninga og hafa fulltrúar Alþýðusambandsins gefið til kynna vilja til að samningar verði opnaðir.

Forsvarsmenn SA segja samtökin ekki munu eiga frumkvæði að opnun samninga. Þá segir Vilhjálmur eins mega búast við því að atvinnulífið reyni að draga í land með launahækkanir fari svo að aftur verði sest við samningsborðið. „Við þurfum að finna ráð til að auka kaupmátt með öðrum leiðum en launahækkunum sem hlaupa beint út í verðlagið,“ segir Vilhjálmur.