Núverandi ríkisstjórn boðaði skattalækkanir á fyrirtæki en reynslan er hins vegar þveröfug. Á meðan ríkisstjórnin hafi lækkað skatta á heimilin, þá hafi fyrirtækin setið eftir. Þetta kemur fram í aðsendri grein Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni fjallar Þorsteinn um að nú, þegar allt stefni í góða afkomu ríkissjóðs, sé lag að lækka álögur á fyrirtæki, og þá sérstaklega tryggingagjaldið. Hann segir miður að tryggingagjaldið hafi ekki verið lækkað á nýjan leik, til samræmis við minni kostnað af atvinnuleysi. „Þvert á móti hafa bæði fyrri ríkisstjórn og núverandi hækkað almennt tryggingagjald á móti lækkun atvinnuleysistryggingagjalds.“

Atvinnulífið hefur borið hitann og þungann af aðgerðum til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, að sögn Þorsteins. Hann bendir á að skattar á atvinnulífið hafi verið hækkaðir um 20 milljarða frá því núverandi ríkisstjórn tók við, til viðbótar fyrri hækkunum.