Upplýsingatæknigeirinnverður sífellt stærri og mikilvægari með hverju árinu og er gríðarleg eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki til marks um þennan vöxt. Þrátt fyrir að aldrei hafi fleiri hafið nám í tölvunarfræði í íslenskum háskólum en í ár, er enn töluvert í það að eftirspurn íslenskra fyrirtækja eftir starfsfólki verði mætt að fullu. Það er því áhugavert að sjá hvernig upplýsingatæknigeirinn, og þá sérstaklega hugbúnaðargeirinn hefur þróast hér á landi á síðustu árum.

Fyrirtækjum, sem starfa við hugbúnaðargerð og -útgáfu, rekstur tölvukerfa, gagnavinnslu, hýsingu og aðra þjónustustarfsemi fjölgaði um 26% á árunum 2008 til 2013, samkvæmt tölum Hagstofunnar og var fjölgunin hlutfallslega langmest í starfsemi vefgátta, en á tímabilinu fjölgaði þeim úr 12 í 49, eða um rúm 300%. Þá fjölgaði fyrirtækjum í hugbúnaðargerð um 29% á sama tíma.

Þrátt fyrir að tölvuleikjaframleiðsla sé mjög áberandi í umræðunni, eru aðeins fimm fyrirtæki sem starfa við slíka framleiðslu samkvæmt Hagstofunni, en voru fjögur talsins árið 2008. Flest voru þau árið 2011, eða sex talsins. Hagstofan viðurkennir að tölur hennar séu annmörkum háðar, en það sést e.t.v. best á því að í samtökum íslenskra tölvuleikjaframleiðenda, IGI, eru nú átta meðlimir. Eru þar á meðal þekktari fyrirtæki eins og Betware, CCP og Plain Vanilla, auk minna þekktra fyrirtækja eins og AlterEgo Studios og Lumenox.