Guðmundur Guðbjarnason, forstöðumaður Ársreikningaskrár, segir að árið 2007 hafi verið algert metár í umsóknum um að fá að halda bókhald sitt og semja ársreikninga í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum.

Telur Guðmundur að aukninguna megi rekja til mikillar umræðu um málið að undanförnu.

Á haustdögum 2007 bárust 80 umsóknir til Ársreikningaskrár. Nú eru 219 félög sem hafa heimild til að halda bókhald sitt og semja ársreikninga í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum.

Þar af eru 112 með dollara, 77 félög með evru, 21 félag með sterlingspund og fimm gjaldmiðlar skiptast á 9 félög. Guðmundur segir einnig að mörg félög hafi haft þessa heimild sem nú eru horfin af markaði eða sameinuð öðrum.

Í nýlegri grein sem birtist í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, fjallar Guðmundur um þau sjónarmið sem lágu að baki þeirri hugmynd að heimila félögum að færa bókhald sitt og semja ársreikninga í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum.

Niðurstaða nefndar fjármálaráðherra um málið var sú að heimila ætti fyrirtækjum að velja gjaldmiðil til notkunar í bókhaldi. Kæmi það í veg fyrir miklar sveiflur í afkomu fyrirtækja milli ára. Einnig myndi það auka áhuga erlendra fyrirtækja á Íslandi.

Eftir að frumvarp til breytingar á lögum um ársreikninga varð að lögum í apríl 2002, fengu strax 46 félög heimild til þessa á fyrsta árinu. Í grein sinni heldur Guðmundur því fram að þörf hafi verið á þeirri lagabreytingu sem lagt var í árið 2002. Í því samhengi bendir hann á þann fjölda sem hefur sótt um á síðastliðnum sex árum.

Þau félög sem hyggjast færa bókhald sitt og semja ársreikninga í öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni verða að sýna fram á að þau hafi rekstur erlendis eða starfi í erlendu viðskiptaumhverfi. Hefur komið til þess að félögum hafi verið synjað um leyfi á þessum forsendum.

Algengast er að um sé að ræða smærri félög eða dótturfyrirtæki stærri félaga sem biðji um þessa heimild. Af fyrirtækjum skráðum í Kauphöll Íslands eru átta sem hafa heimild til að færa bókhald sitt og semja ársreikninga í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum.