Í tengslum við breyttar áherslur í rekstri Icebank hefur skipulagi Icebank verið breytt. Nýju tekjusviði, fyrirtækjaráðgjöf, hefur verið bætt við. Fyrirtækjaráðgjöf mun veita viðskiptavinum Icebank þjónustu við kaup og sölu á fyrirtækjum hér heima og erlendis með áherslu á tækifæri fyrir fjárfesta í Austur-Evrópu.

Einnig hefur rekstrarsviði bankans verið skipt upp og nýtt svið, fjármála- og upplýsingatæknisvið, tekið til starfa, segir í frétt frá Icebank.

Aðalsteinn Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri  fyrirtækjaráðgjafar Icebank. Hann var annar stofnenda Behrens Fyrirtækjaráðgjafar sem Icebank keypti síðastliðið haust.

Sveinn Andri Sveinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs Icebank. Hann var áður framkvæmdastjóri Hands Holding.

Um áramótin var tilkynnt um að Agnar Hansson hefur verið ráðinn í stól forstjóra Icebank í stað Finns Sveinbjörnssonar. Agnar gegndi stöðu framkvæmdastjóra fjárstýringar Icebank síðastliðinn tvö ár.