Markus Braun, fyrrum forstjóri Wirecard og jafnframt stærsti hluthafi þess, var handtekinn í gærkvöldi vegna gruns um bókhaldssvik og markaðsmisnotkun, samkvæmt tilkynningu saksóknara í Munchen í morgun.

Saksóknarar ásaka Braun, sem lét af störfum á föstudaginn, um að hafa blásið upp efnahagsreikning og tekjur þýska greiðslufyrirtækisins. Þeir telja einnig að Braun hafi unnið í samráði með öðrum. Talskona skrifstofu saksóknarana í Munchen sagði við Financial Times að fyrrum stjórn fyrirtækisins væri undir rannsókn.

Sjá einnig: Wirecard týndi 1,9 milljörðum evra

Hinn austurríski Braun gaf sig fram til saksóknara í gærkvöldi eftir að hafa ferðast frá Vínarborg, heimaborg sinni, til Munchen í kjölfar handtökuskipunar. Braun losnaði úr gæsluvarðhaldi fyrr í dag gegn 5 milljóna evra tryggingu en mun þurfa að mæta vikulega til lögreglu.

Wirecard varaði við því í gær að um 1,9 milljarðar evra af handbæru fé á efnahagsreikningi félagsins væru líklega ekki til. Gengi hlutabréfa fjártæknifyrirtækisins hafa fallið um meira en 80% frá því á fimmtudaginn í síðustu viku.