Fyrrum yfirmaður lögfræðisviðs Apple, Nancy Heinen, hefur samþykkt að greiða 2,2 milljónir Bandaríkjadala til að ná sáttum í máli gegn henni.

Nancy var kærð fyrir að leyna því að kaup hluta samkvæmt kauprétti sem yfirmenn Apple höfðu voru færð í bókhald fyrirtækisins á aðra dagsetningu en þau áttu sér stað á. Meðal þeirra sem nýttu kaupréttinn var forstjórinn sjálfur, Steve Jobs.

Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna segir Apple hafa vanmetið útgjöld um 40 milljónir dala með því að rugla dagsetningum í bókhaldinu.

Ekki er ólöglegt í sjálfu sér að færa kaup samkvæmt kaupréttarsamningi inn í bókhald á öðrum tíma en þau eru gerð, en að gera slíkt með leynd er hins vegar ólöglegt.

Þetta kemur fram íf frétt BBC.