Þorsteinn Jóhannesson, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins PVG í Hafnarfirði og einn eigenda Glerborgar um skeið, hlaut í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm til tveggja ára og til greiðslu 37,3 milljóna króna sektar vegna skattsvika og fyrir að hafa ekki staðið skil á opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins á ákveðnu tímabili á árunum 2008 og 2009.

Félag Þorsteins, PVG, var stofnað árið 2000 og var um nokkurra ára skeið eitt af stærstu fyrirtækjum landsins í framleiðslu á viðhaldsfríum gluggum og hurðum úr harðplastefni. PVG var úrskurðað gjaldþrota í júlí árið 2009 og heitir félagið í dag KK 101 ehf.

Embætti sérstaks saksóknara ákærði Þorstein vegna málsins í maí í fyrra og var honum gefið að sök að hafa stungið undan tæpum 19 milljónum króna. Farið er fram á sex mánaða skilorðsbundinn dóm yfir Þorsteini og til greiðslu tvöfalds skattaundanskotsins.

Þorsteinn er búsettur í Svíþjóð og var hann ekki viðstaddur dómsuppsögu.

Dómari í málinu tók ekki tillit til varna Þorsteins þess efnis að bankareikningur hans hafi verið handveðssettur viðskiptabanka hans og kröfuhafa. Þorsteinn hafi beðið bankann um að ganga frá greiðslunum og hafi það ekki verið ásetningur hans að greiða ekki gjöldin. Sýnt var fram á við aðalmeðferð málsins að Þorsteinn hafi beðið bankann um greiðslu gjaldanna. Félag hans var hins vegar stórskuldugt gagnvart bankanum auk þess sem vörsluskattar voru ekki undanþegnir handveðssetningunni.