Fred L. Turner, fyrrverandi forstjóri bandarísku skyndibitakeðjunnar McDonald's lést á mánudag. Hann var fæddur 6. janúar árið 1933 og fagnaði 80 ára afmæli á sunnudaginn. McDonald's á Turner mikið að þakka en á reikning hans skrifast mikil stækkun fyrirtækisins, sem nú er orðin helsta skyndibitakeðja í heimi.

Eins og bandaríska dagblaðið The Los Angeles Times lýsir Turner þá var hann holdgervingur ameríska draumsins. Hann lauk ekki háskólanámi, gekk í herinn um tvítugt, sótti um starf hjá McDonald's 23 ára að aldri árið 1956 og var ráðinn til að steikja hamborgara. Frami Turners var skjótur innan veggja skyndibitakeðjunnar. Hann hætti fljótlega í eldhúsinu, fór að afgreiða viðskiptavini og var kominn í stjórnunarstöðu árið 1958. Sama ár skrifaði hann ítarlegar leiðbeiningar fyrir starfsfólk, s.s. um það hvernig eigi að steikja hamborgara, sem enn munu vera í notkun. Hann á jafnframt heiðurinn að því að guli einkennisbogi skyndibitakeðjunnar stendur fyrir utan alla veitingastaði McDonald's. Hann var áður inni á veitingastaðnum en Turner flutti hann út fyrir dyrnar. Það sama á við um ýmsa rétti sem eru á matseðli veitingastaðarins.

Turner var ráðinn forstjóri McDonald's árið 1973 og vermdi hann forstjórastólinn næstu 14 árin eða fram til ársins 1987. Um tíma var hann stjórnarformaður skyndibitakeðjunnar á sama tíma eða frá árinu 1977 til 1990.