Sænsk yfirvöld hafa handtekið þrjá fyrrverandi stjórnendur sænska bílaframleiðandans Saab vegna gruns um aðild að bókhaldssvikum til að lækka skattgreiðslu Saab á árunum 2010 og 2011.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir stjórnendurna fyrrverandi geta átt allt að fjögurra ára dóm yfir höfði sér verði þeir fundnir sekir um brotin. Einn hinna handteknu er Jan Åke Jonsson, fyrrverandi forstjóri Saab.

Þremenningarnir unnu hjá Saab þegar bílaframleiðandinn var í eigu hollenska fyrirtækisins Spyker.

Spyker keypti rekstur Saab af General Motors árið 2010 og náði ekki að koma rekstrinum á réttan kjöl með þeim afleiðingum að hann fór í þrot. Saab er nú í eigu fyrirtækis sem skráð er í Hong Kong.