Ingvar Vilhjálmsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Kaupþings, er orðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins Ægis sjávarfangs í Grindarvík. Helga María Garðarsdóttir, eiginkona Ingvars, er skráður eigandi fyrirtækisins í gegnum tvö eignarhaldsfélög: Ægir Holding og Kveikur. Fyrirtækið framleiðir niðursoðna þorsklifur.

Fjallað er um málið í DV í dag.

Ingvar var á meðal þeirra lykilstjórnenda Kaupþings sem fékk nokkuð hundruð milljónir króna að láni hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum bankans. Hann var í nóvember árið 2011 dæmdur til að endurgreiða bankanum 2,6 milljarða króna og var gerður persónulega ábyrgur fyrir hluta lánanna. Þá var í síðasta mánuði greint frá því að embætti sérstaks saksóknara hafi ákært Ingvar fyrir skattsvik en honum er gefið að sök að hafa ekki talið fram í kringum 500 milljóna króna fjármagnstekjur af tugum gjaldmiðlaskiptasamninga.