Fyrsta áfanga við smíði á nýrri jarðvarmahitaveitu í Xian Yang í Shaanxi héraði í Kína hefur verið lokið. Að hitaveitunni stendur Shaanxi Geothermal Energy Development Corporation og á Enex Kína 49% hlut í félaginu. Enex Kína ehf er í eigu Enex, Glitnis og Orkuveitu Reykjavíkur, að því er fram kemur í tilkynningu.

Í tilkynningunni segir að hitaveitan gæti orðið sú stærsta í heimi.  Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra gangsetti hitaveituna í gær.

Heildarfjárfesting fyrsta áfanga er um 2,4 milljónir evra (217 milljónir króna), að fram kom í frétt Viðskiptablaðsins 25. oktbóber.

Xian Yang borg býr yfir miklum jarðvarma sem er að miklu leyti ónýttur en borgin fékk formlega titilinn ?Jarðhitaborg Kína" fyrr á árinu. Jarðvarmi er hrein og endurnýtanleg orka og er talin hafa mikla möguleika til að sjá Kína og öðrum löndum fyrir orku.