Nú liggur fyrir að fyrsta afurð hins nýja mjólkursamlags Mjólku ehf verður fetaosturinn ?Léttfeti". Neysla Íslendinga á fetaosti hefur vaxið hröðum skrefum á síðustu árum og hentar tækjabúnaður og sú aðstaða sem nú er verið að koma upp í mjólkurstöð Mjólku á Ártúnshöfða mjög vel til framleiðslu fetaosts.

Mjólkursamlagið Mjólka ehf. var stofnað í fyrra mánuði og mun sérhæfa sig í framleiðslu og sölu á ostum fyrir innanlandsmarkað. Mjólka starfar utan greiðslumarkskerfis landbúnaðarins og nýtur því ekki framleiðslustyrkja frá hinu opinbera. Stefna Mjólku er að auka hollustu þeirra mjólkurafurða sem neytendum stendur til boða á íslenskum markaði og taka þannig mið af manneldissjónarmiðum.

Eftir að greint var frá áformum Mjólku um að hefja framleiðslu á ostum utan kerfis hafa margir mjólkurframleiðendur haft samband og óskað eftir að selja hinu nýja mjólkursamlagi umframmjólk. Nú hefur verið ákveðið að koma til móts við þessar óskir og stefnir Mjólka að því að gera bændum verðtilboð í umframmjólk í næsta mánuði. Þeir bændur sem áhuga hafa á að komast í viðskipti eru hvattir til að setja sig í samband við Mjólku á næstunni.

Uppbygging mjólkursamlagsins og undirbúningur ostaframleiðslunnar hefur gengið samkvæmt áætlun og er stefnt að því að fyrstu ostarnir verði tilbúnir í verslanir í næsta mánuði. Hönnun umbúð utan um ?Léttfeta" er á lokastigi og hefur þegar verið samið við verslanir sem munu taka nýja ostinn í sölu. Tækjakostur til framleiðslunnar hefur verið keyptur frá Danmörku og er gert ráð fyrir að uppsetning hans hefjist á næstunni. Mjólkurframleiðsla er þegar hafin á bænum Eyjum II í Kjós og hafa aðstandendur Mjólku fest kaup á 80 mjólkurkúm en gert er ráð fyrir að fjölga þeim í 120.

Mjólka ehf. hefur nýverið gert samning við danska mjólkursamlagið Lögimose mejeri A/S um faglegt samstarf og um samvinnu við kaup á aðföngum öðrum en mjólk. Logimose majeri er stærsta einkarekna mjólkursamlag Danmerkur og vinnur árlega afurðir úr 12 milljónum lítra af mjólk. Undanfarin ár hefur Lögimose staðið framarlega í vöruþróun ferskra osta og munu starfsmenn Mjólku meðal annars njóta starfsþjálfunar þar.