Icelandair hóf í dag áætlunarflug til Stavanger í Noregi. Flogið verður til og frá borginni tvisvar í viku í sumar með viðkomu í Bergen á leiðinni frá Íslandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en í tilefni dagsins tóku borgarstjóri Stavanger, Leif Johan Sevland og flugvallarstjóri Stavangerflugvallar, Leif Lorintzen, á móti Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair og öðrum farþegum þegar Icelandair þotan lenti í Bergen og flaug ásamt hópi norskra fjölmiðlamanna og ferðaþjónustuaðila hina stuttu leið yfir til Stavanger, þar sem haldin var stutt móttökuathöfn.

Í tilkynningunni kemur fram að Icelandair hefur um árabil flogið daglegt áætlunarflug til Osló, en hóf fyrir tveimur árum reglulegt flug til Bergen á vesturströnd landsins. Í sumar verður flogið daglega til Osló, fjórum sinnum í viku til Bergen og tvisvar í viku til Stavanger.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair segist sjá ýmis tækifæri í þessu aukna flugi til Noregs.

„Viðskiptahugmyndin á bak við Icelandair er sú að nýta legu landsins á milli Norður-Evrópu og Norður-Ameríku til arðbærrar flugstarfsemi,“ segir Birkir Hólm í tilkynningunni.

„Þessi samfélög á vesturströnd Noregs, Bergen og Stavanger, eru hvert um sig álíka fjölmenn og Ísland, þau hafa efnahagslegan styrk og mjög þróaðan ferðaiðnað, m.a. í tengslum við skemmtiferðaskip. Að auki eru sterk tengsl milli Íslands og þessa svæðis, bæði söguleg og atvinnuleg. Margir Íslendingar eru búsettir á þessum slóðum. Við teljum því að við getum byggt upp hagkvæmt flug á þessa staði og fengið farþega á öllum þremur markaðssvæðunum, þ.e. vestanhafs, á Íslandi og í Noregi. Við getum boðið upp á langtum betri tengingar til Kanada og Bandaríkjanna í gegnum Ísland frá þessum slóðum en áður hefur verið boðið upp á.“