Mette Marit krónprinsessa í Noregi mun á laugardaginn 24. október gangsetja fyrstu osmotic eða osmósu virkjun heims í Tofte skammt frá Osló. Virkjunin byggir á himnuflæði eða nýtingu spennumunar til raforkuframleiðslu þar sem ferskvatn rennur út í saltan sjó.

Bygging þessa tilraunaorkuvers hefur staðið yfir í eitt ár. Norska orkufyrirtækið Statkraft, sem er stærsta fyrirtæki í Evrópu sem byggir á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, hefur unnið að rannsóknum á virkjun osmósu orku allar götur síðan 1997. Hugmyndin um osmósu- eða himnuflæðivirkjun mun þó hafa komið fyrr, eða á árunum upp úr 1970. Hefur Statkraft lagt meira en 100 milljónir norskra króna í þróun osmósu virkjunar.

Virkjunin sem  opnuð verður í Tofte 24. október hefur ekki mikla framleiðslugetu, en er fyrst og fremst hugsuð til að þróa osmósu hugmyndina betur. Markmiðið er að með þeirri þekkingu og reynslu sem þar fæst verði hægt að hanna fullbúið orkuver innan fimm ára.

Talið er að osmósuaflið í heiminum öllum sé um 1.600 til 1.700 TWh (teravattstundir). Það jafnast á við 50% af allri orkuframleiðslu Evrópusambandsríkjanna, eða alla orkuframleiðslu í Kína árið 2002.

Mikill áhugi er um allan heim fyrir þessari osmósutilraun Norðmanna og mun fjöldi útlendinga verða viðstaddur gangsetningu virkjunarinnar í Tofte.