Langþráð stund rann upp í morgun hjá starfsmönnum Samskipa þegar fyrsta vörusendingin var formlega afgreidd úr nýju Vörumiðstöðinni við Kjalarvog, tæpri viku eftir að flutningur hófst formlega í húsið.

"Það er mér sönn ánægja að afhenda þér fyrstu vörurnar úr nýju Vörumiðstöðinni okkar,? sagði Halldóra Káradóttir, deildarstjóri vöruhúsadeildar, þegar Kristján Eggert Gunnarsson, forstjóri Gunnars Eggertssonar hf., veitti sendingunni viðtöku ásamt blómvendi frá Samskipum í tilefni dagsins. Vörusendingin var pappír frá Svíþjóð fyrir íslenskan prentiðnað, aðallega í jólakort og var ekki örgrannt um að viss jólastemning ríkti í Vörumiðstöðinni þegar starfsemin var formlega hafin.

?Í þessu húsi eru draumar okkar að rætast um fullkomna aðstöðu til geymslu og meðhöndlunar á vöru,? segir Halldóra Káradóttir. ?Við erum að sameina vöruhúsastarfsemi félagsins undir eitt þak hér í Vörumiðstöðinni, starfsemi sem hefur verið í fjórum húsum, og það býður upp á fjölmörg tækifæri til að bæta alla þjónustu við viðskiptavini okkar," segir Halldóra Káradóttir í tilkynningu félagsins.

Frá og með deginum í dag er öll innflutt sjófrakt hjá Samskipum og Jónum Transport móttekin og afgreidd í nýju Vörumiðstöðinni, utan eldri sendinga sem verða afgreiddar úr Vöruhúsi A út næstu viku. Næstu daga og vikur bætist síðan önnur starfsemi við koll af kolli, eftir því sem flutningi miðar áfram í nýja húsið. Er gert ráð fyrir að flugafgreiðslan verði tekin til starfa í Vörumiðstöðinni um miðja næstu viku og tollvörugeymslan að fullu um mánaðamótin. Aðra vikuna í nóvember verður svo vörudreifingarmiðstöðin komin í nýja húsið og fyrir áramót flytja Landflutningar?Samskip og skrifstofur Jóna Transport og Samskipa.

Nýja Vörumiðstöðin við Kjalarvog er sú stærsta og fullkomnasta á landinu og eru starfsmenn hennar alls um 100 talsins. Þar verður undir einu þaki aðstaða fyrir innflutning, vöruhýsingu, móttöku búslóða, tollvörugeymslu, innanlandsflutninga og vörudreifingu. Öll nýjasta tækni í vöruhúsaþjónustu er nýtt til hins ýtrasta og er geymslurýminu skipt upp fyrir þurrvöru, olíuvöru, efnavöru, kælivöru, frystivöru og smávöru, auk samsetningar- og meðhöndlunarrýmis. Heildargólfflötur byggingarinnar er alls um 27.000m² og þar er pláss fyrir um 21 þúsund vörubretti, auk þess sem fimm þúsund hillumetrar eru fyrir smávöru..