*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 15. október 2019 07:02

Fyrsta skrefið inn á smásölumarkaðinn

Forstjóri Skeljungs segir kaup félagsins á Basko vera fyrsta skrefið inn á smásölumarkaðinn.

Sveinn Ólafur Melsted
Aðsend mynd

Stóru olíufélögin hér á landi verið að skjóta nýjum stoðum undir rekstur sinn. Kaup N1 á Festi og kaup Haga á Olís eru nýleg dæmi um það. Í síðasta mánuði gekk Skeljungur frá kaupum á öllu hlutafé í Basko, sem m.a. á og rekur fjórar 10-11 verslanir og fjórtán verslanir undir merkjum Kvikk, sem reknar eru við eldsneytisstöðvar Skeljungs. Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, segir ástæðuna fyrir kaupum Skeljungs á Basko vera tvíþætta.

„Í fyrsta lagi höfum við lýst því yfir að við ætlum út í smásöluna og kaupin á Basko eru ágætis byrjun á því að fara þangað. Þrátt fyrir að það sé tiltölulega lítið fyrirtæki á smásölumarkaðnum er það engu að síður að velta fimm milljörðum króna á ársgrundvelli og er með alla þá innviði sem þarf að hafa hjá smásölufyrirtæki s.s. kassakerfi, innkaupasamninga, reynslumikið starfsfólk o.s.frv. Þá býr fyrirtækið yfir sterkum staðsetningum sem oft er einn erfiðasti þátturinn við að koma inn á markaðinn. Hins vegar var það sem vó ekki síður þungt í þessari ákvörðun, að Basko hefur verið að reka verslanir Kvikk við bensínstöðvarnar okkar. Margar hverjar eru þetta mjög mikilvægar stöðvar fyrir okkur og þetta gefur okkur tækifæri til að samþætta vöru- og þjónustuframboðið hjá Orkunni og Kvikk.

Í mínum huga er ljóst að þetta er aðeins fyrsta skrefið af lengri vegferð inn á smásölumarkaðinn, en skref sem setur okkur strax inn á kortið. Stærri skref verða svo tekin í kjölfarið. Þetta er þáttur í því að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi olíufélaga og verða meira rekstrarfélag sem er í fleiru en að selja bara eldsneyti. Ef við ætluðum bara að vera í því að selja eldsneyti myndum við horfa fram á það að markaðurinn muni minnka hægt og rólega á næstu árum. Samkeppnisaðilar okkar hafa einnig verið að taka skrefið inn á smásölumarkaðinn og því alveg ljóst í hvaða átt þessi markaður er að fara og er þetta í samræmi við þá þróun sem er að eiga sér stað úti í heimi."

Nánar er rætt við Árna Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.