Deutsche Bank, stærsti banki Þýskalands miðað við markaðsverðmæti, tapaði 131 milljón evra á fyrsta fjórðungi ársins en hagnaður bankans nam 2,1 milljarði á sama tímabili í fyrra. Tapið er þó minna en spáð hafði verið en samkvæmt Dow Jones Newswires hljóðaði meðalspá upp á 188 milljóna evra tap. Þetta er fyrsta ársfjórðungstap bankans í fimm ár.

Deutsche Bank færði niður eignir um 2,7 milljarða evra vegna lækkunar á verðmæti ýmis konar skuldabréfa. „Þrýstingur á bankageirann var meiri í mars en í nokkrum öðrum mánuði síðan yfirstandandi erfiðleikar á lánamarkaði hófust. Þetta setti óhjákvæmilega svip sinn á afkomu Deutsche Bank,“ hefur WSJ eftir forstjóra bankans, Josef Ackermann.