Fyrstu slátrun á laxi í landeldisstöð Landeldis hf. í Þorlákshöfn er lokið. Alls var tæplega 50 þúsund löxum slátrað. Stærstu laxarnir voru um 5 kg en meðalþyngd var tæplega 3 kg.

Í tilkynningu Landeldis segir að slátrun, vinnsla, pökkun og sala hafi gengið samkvæmt áætlun. Um 110 tonn af slægðum laxi voru seld og send til viðskiptavina beggja vegna Atlantshafsins í síðustu viku.

Alls eru nú ríflega 1,75 milljónir laxa í seiða- og áframeldisstöðvum Landeldis. Næsta uppskera hjá Landeldi hf. er áætluð í ágúst.

„Þetta er stór stund og mikilvægur áfangi fyrir Landeldi hf. að fá sína fyrstu uppskeru í hús ef svo má að orði komast og sjá þar með áþreifanlegan árangur mikillar vinnu síðustu fimm ára. Sú staðreynd að laxinn hefur dafnað afar vel síðast liðið ár í landeldisstöð okkar við Þorlákshöfn og að viðskiptavinir okkar gefa afurðinni hæstu einkunn sökum bragðgæða, sýnir okkur svart á hvítu að sú tækni sem við beitum í landeldisstöð okkar, er að sanna sig,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Landeldis.

„Landeldi á laxi er í eðli sínu nýsköpunarverkefni og við eigum enn langt í land í lærdómskúrfunni en þessi afar vel heppnaða fyrsta uppskera og jákvæð viðbrögð viðskiptavina staðfesta að við erum á réttri leið. Við höldum ótrauð áfram uppbyggingu umhverfisvæns og sjálfbærs laxeldis á landi.“

Landeldi hf. starfrækir seiðaeldisstöð við Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn. Félagið hefur lokið umhverfismati og hefur öðlast öll leyfi til að ala árlega um 8 þúsund tonn af laxi, en markmið félagsins er að framleiðslugeta félagsins verði á endanum um 43 þúsund tonn á ári.

Stærsti hluthafi Landeldis er fjárfestingafélagið Stoðir með 40% hlut. Hluthafar Landeldis eru í dag um 50 talsins.