*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 10. október 2019 13:09

Gagnrýna hernaðaraðgerðir Tyrkja

Íslensk stjórnvöld gagnrýna harðlega hernaðaraðgerðir Tyrklandshers gegn Kúrdum í Sýrlandi.

Ritstjórn
Skrifstofur Utanríkisráðuneytisins eru við Rauðarárstíg 25 í Reykjavík.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Íslensk stjórnvöld hafa með formlegum hætti komið gagnrýni sinni á hernaðaraðgerðir Tyrklandshers gegn Kúrdum í Sýrlandi, á framfæri við tyrknesk yfirvöld. Greint er frá þessu í frétt á vef Stjórnarráðsins. 

Íslensk stjórnvöld telja að hernaðaraðgerðirnar samræmast ekki alþjóðalögum og kerfjast þess að Tyrkir hætti aðgerðunum þegar í stað og fylgi alþjóðalögum í hvívetna.

„Hernaður sem beinist að almennum borgurum og veldur manntjóni, eins og fregnir herma, er fordæmdur,“ segir í fréttinni og ennfremur: 

„Íslensk stjórnvöld hafa þungar áhyggjur af því að yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrkja magni enn frekar ófriðarbálið á svæðinu og geri að engu þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hann lýsti miklum áhyggjum af hernaðaraðgerðum Tyrklandsstjórnar gegn Kúrdum á sýrlensku yfirráðasvæði og kallaði eftir vopnahléi á svæðinu. Þá hefur afstaða ríkisstjórnarinnar til aðgerðanna komið fram á Alþingi og í fjölmiðlum undanfarna daga.“