Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, stendur nú í ströngu meðan hann verst ákærum sérstaks saksóknara fyrir meint brot í störfum sínum fyrir bankann. Í janúarmánuði árið 1990 blasti framtíðin þó björt við Sigurjóni þegar frú Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, veitti honum námsstyrk fyrir einstakt námsafrek. Náði Sigurjón þeim árangri að hafa meðaleinkunnina 9,41 að loknum 80 af 120 einingum sem þurfti til að ljúka lokaprófi í verkfræði. Var það betri árangur en nokkur þeirra 507 verkfræðinga sem þá höfðu útskrifast með lokapróf frá Háskóla Íslands hafði náð á sama stigi.