Einkahlutafélagið Rekstur 90 ehf., sem áður hét Bræðurnir Ormsson, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Síðasti rekstrardagur félagsins var 13. september sl.

Eigendur félagsins voru Bergsala Íslands (áður R2D2 ehf.) og Ormsson ehf. Félögin eru að hluta til í eigu þeirra Andrésar B. Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Bræðranna Ormsson, og Einars Þórs Magnússonar, fjármálastjóra.

Nafni félagsins var breytt úr Bræðurnir Ormsson ehf. í Rekstur 90 ehf. þann 5. september sl. Í dag eru fjórar verslanir reknar undir nafninu Bræðurnir Ormsson. Þær verslanir eru reknar undir Emerio ehf., sem síðan er í eigu tveggja félaga; Dittó ehf. í eigu Karls Þorsteins og Klettahraun ehf. sem er í eigu Magnúsar Magnússonar. Hlutafé Emerio var í vikunni aukið úr 500 þús.kr. í 5,4 m.kr.

Þá stofnaði Magnús í félagi við aðra félagið Ormsson Verslunin ehf. þann 13. september sl. eða sama dag og rekstri gamla fyrirtækisins, sem nú heitir Rekstur 90, var hætt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.