Líklegt þykir að Bill Gates, einn stofnenda og fyrrverandi forstjóri bandaríska hugbúnaðarrisans Microsoft, ætli að skipta sér í meiri mæli en áður af framþróun fyrirtækisins og tæknisköpunar þess. Það gerir hann með því að stíga til hliðar sem stjórnarformaður Microsoft og gerast sérlegur tæknilegur ráðgjafi.

Í gær var tilkynnt að Satya Nadella taki við af Steve Ballmer sem forstjóri Microsoft og að John Thomspon, einn af framkvæmdastjórum Microsoft, setjist í sætið sem Gates skilur eftir við borð stjórnarinnar. Bill Gates mun ekki hverfa alfarið úr stjórn Microsoft en þar færir hann sig um set og verður stjórnarmaður.

Nadella er 46 ára og verður hann þriðji forstjóri Microsoft frá upphafi, þ.e. á eftir sjálfum Gates og Ballmer, sem tók við af honum. Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir efasemdir um að hann sé rétti maðurinn í stöðuna, ekki síst sökum þess að hann hefur ekki áður stýrt fyrirtæki, hvað þá risafyrirtæki á borð við Microsoft.

Bill Gates fór yfir breytinguna í ávarpi á netinu í gær.